Hagfræði í hnotskurn

28.03.2022

Bókafélagið Ugla og RSE hafa gefið út hið sígilda hagfræðirit Hagfræði í hnotskurn eftir Henry Hazlitt, í íslenskri þýðingu Haraldar Johannessen ritstjóra Viðskiptablaðsins. Í ritinu dregur Hazlitt saman ýmis grunnatriði hagfræðinnar og fjallar að auki um ýmsar hagfræðilegar ranghugmyndir sem sífellt skjóta upp kollinum í þjóðfélagsumræðunni. Fyrsta útgáfa kom út árið 1946 og varð strax metsölubók. Hefur hún selst í yfir milljón eintaka.

Ritið kom fyrst út á íslensku árið 2000 og kemur nú út í annarri útgáfu að frumkvæði RSE, nær óbreytt nema með nýjum inngangi Birgis Þórs Runólfssonar dósents við Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Inngangur Birgis Þórs hefst á tilvitnun í ritið þar sem Hazlitt dregur saman kjarnann í ritinu:

„Hagfræðin felst í því að líta ekki aðeins á skammtímaáhrif stefnu eða ákvarðana heldur einnig á langtímaáhrifin, og að skoða afleiðingarnar ekki aðeins fyrir einn hóp heldur alla hópa.“

Svo segir í inngangi:

Þegar Hazlitt gaf út núverandi útgáfu af Hagfræði í hnotskurn réttum tveimur öldum síðar, taldi hann að útlitið væri dökkt, en ekki alveg vonlaust. Hann taldi mögulegt að þjóðir heims sneru af rangri leið áður en skaðinn væri orðinn óbætanlegur; einhverjir stjórnmálamenn væru jafnvel farnir að átta sig á þessu. Vonir hans virtust rætast um sinn þegar stjórnvöld víðsvegar á Vesturlöndum breyttu áherslum í efnahagsmálum og boðuðu frjálsari viðskipti á níunda og tíunda áratug 20. aldar. Til viðbótar féll efnahagskerfi kommúnistaríkjanna í Austur-Evrópu og frjálsari viðskipti hófu innreið sína þar. Hazlitt taldi engu að síður að lexían hefði ekki verið nægilega vel numin né heldur af nægilega mörgum. Ranghugmyndirnar voru enn til staðar, jafnvel rótgrónari á vissum sviðum en áður, þó ýmsar ranghugmyndir hefðu hopað á öðrum sviðum. Þó að bókin taki að mestu mið af bandarísku hagkerfi í dæmisögum sínum, ætti íslenskum lesendum fljótlega að verða ljóst að öll sömu lögmál efnahagslífs og hagsmunatogstreitu gilda hér á landi. Ritið á því fullt erindi til okkar Íslendinga sem og annarra þjóða.