Skýrsla um umferðartafir

05.04.2022

Um kostnað vegna umferðartafa á höfuðborgarsvæðinu

Í þessari skýrslu er leitast við að leggja mat á þann kostnað sem umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu valda. Skýrslan er gerð að ósk Samgangna fyrir alla (SFA) og með fjárhagsstuðningi frá Rannsóknarmiðstöð um samfélags og efnahagmál (RSE). Að gerð skýrslunnar hafa einkum unnið Elías Elíasson verkfræðingur, Jónas Elíasson prófessor, Ragnar Árnason prófessor og Þórarinn Hjaltason samgönguverkfræðingur.

• Greiðar samgöngur er ein helsta grunnstoð framleiðni og hagvaxtar og veigamikill þáttur í hagsæld fólks. [Kafli 1]
• Umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu hafa farið mjög vaxandi á undanförnum árum. [Kafli 0]
• Því miður hafa skipulegar mælingar á umferðartöfum á höfuðborgarsvæðinu ekki verið gerðar. Í þessari skýrslu hefur því reynst óhjákvæmileg að beita óbeinum matsaðferðum til að áætla þessar
umferðartafir. Ein af afleiðingum þessa er að óvissubil matsins eru víðari en ella væri. [Kaflar 0 og 3]
• Tafatími í umferð á höfuðborgarsvæðinu var metinn með þremur mismunandi aðferðum. Samkvæmt þeim telst þessi tafatíma hafa verið á bilinu 27 til 66 þúsund klukkustundir að jafnaði á hverjum virkum degi ársins 2019. Á öllu árinu 2019 er þessi tafatími talinn hafa verið 9 til 20 milljón klukkustundir. [Kafli 3].
• Fyrirliggjandi þekking er ekki næg til að unnt sé að leggja nákvæmt mat á tímavirði í umferð á höfuðborgarsvæðinu. [Kafli 4]
• Virði tafatíma í umferð á höfuðborgarsvæðinu frá sjónarmiði einstaklinga er talið hafa verið á bilinu 2900-7200 kr./klst. á árinu 2019. Þjóðhagslegt virði sama tafatíma er talið hafa verið á bilinu 6800-10200 kr./klst. [Kafli 4.3]
• Kostnaður einstaklinga vegna umferðartafa á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2019 er talinn vera á bilinu 36-90 mia. kr. Miðja þess bils er í námunda við 60 mia. kr. [Kafli 5.2]
• Þjóðhagslegur kostnaður vegna sömu umferðartafa á árinu 2019 er talinn vera talsvert hærri eða á bilinu 90 til 170 mia. kr. [Kafli 5.2]