Frelsisvísitalan 2023

19.09.2023

Fraser stofnunin (Fraser Institute) í Kanada hefur nú birt niðurstöður alþjóðlegrar samanburðarrannsóknar á efnahagslegu frelsi í heiminum. Þar kemur fram að Ísland er í 14. sæti á lista 165 landa sem rannsóknin nær til, en var í 11. sæti árið 2022 og 16. sæti árið 2021. Staða Íslands helgast einkum af sterkum lagalegum og pólitískum innviðum, ríkri vernd eignarréttar, en íþyngjandi regluverki í viðskiptaumhverfi fyrirtækja og á vinnumarkaði í samanburði við önnur lönd. Hlutfallslega mikil umsvif hins opinbera raða Íslandi líka neðar á lista. 

Efnahagslegt frelsi er mest í Singapúr samkvæmt skýrslunni, þar á eftir kemur Hong Kong, svo Sviss og Nýja-Sjáland. Þá koma Bandaríkin, Írland, Danmörk, Ástralía, Bretland og Kanada í sætum frá 5 til 10. Af öðrum Norðurlandaþjóðum þá deila Finnar og Svíar í 17. sætinu, og Norðmenn verma það 29. 

Sé litið til stærstu hagkerfanna eru helstu niðurstöður: Bandaríkin í 5. sæti, Japan í 20. sæti, Þýskaland er í 23. sæti, Frakkland í 47. sæti, Ítalía í 53. sæti, Mexíkó í 68. sæti, Indland í 87. sæti, Brasilía í 90. Sæti, Rússland í 104. sæti og Kína í 111. sæti. Botn listans verma svo Súdan, Sýrland, Simbabve og Venesúela. (Athugið að harðstjórnarríki eins og Norður Kórea og Kúba er ekki raðað hér þar sem gögn eru ekki fyrir hendi.) 
 
Hornsteinar efnahagslegs frelsis 
Samkvæmt skýrslunni eru hornsteinar efnahagslegs frelsis valfrelsi einstaklinga, viðskiptafrelsi, samkeppnisfrelsi, sterkir lagalegir innviðir, aðgangur að traustum gjaldmiðli og vernd eignarréttar. Vísitala atvinnufrelsis (index of economic freedom) ræðst af fimm meginsviðum: 

  • Umfangi opinbers reksturs, skatta og fyrirtækja. 
  • Lagalegu umhverfi og friðhelgi eignarréttar. 
  • Aðgangi að traustum peningum. 
  • Frelsi og öryggi til alþjóðlegra viðskipta. 
  • Reglubyrði á fjármagns- og vinnumarkaði og um fyrirtæki. 

Innan þessara fimm meginsviða eru síðan 25 þættir, en sumir þeirra eru síðan aðgreindir í enn frekari undirþætti. Í heildina er vísitalan því sett saman úr 45 aðgreindum breytum. Hvert svið, þáttur og undirþáttur eru síðan mælt á kvarða 0 til 10 sem hvílir á dreifingu undirliggjandi gagna. Síðan eru undirþættirnir vegnir i meðaltöl, og slíkt hið sama gildir um þættina og að lokum um hin fimm meginsvið, og til verður gildi fyrir hvert land. Löndum er síðan raðað eftir einkunn, sem segir til um í hvaða mæli þau fylgja stefnu sem leiðir til efnahagslegs frelsis.  

Einkunnir Íslands í lykilflokkum eru eftirfarandi: (á skalanum 1-10 þar sem hærri tala bendir til meira efnahagslegs frelsis.) 

  • Umfang hins opinbera: Einkunnin hækkar úr 5,74 í 5,98 frá fyrra ári. Ísland er í 117. sæti í þessum flokki. 
  • Lagaumhverfi og vernd eignarréttar: Einkunnin er 8,77 og lækkar lítillega úr 8,78 frá fyrra ári. Ísland situr í 6. sæti í þessum flokki. 
  • Aðgangur að traustum gjaldmiðli: Einkunnin lækkar úr 9,55 í 9,42 frá fyrra ári. Ísland situr í 27. sæti í þessum flokki. 
  • Frelsi til alþjóðaviðskipta: Einkunnin hækkar í 8,38 úr 8,12. Ísland situr í 18. sæti í þessum málaflokki.  
  • Reglubyrði: Einkunnin lækkar í 7,12 úr 7,24 frá fyrra ári. Ísland situr í 43. sæti í þessum flokki. (Undirflokkar hér eru: fjármálamarkaður, vinnumarkaður og viðskiptaumhverfi) 

Ef staða Íslands er metin og reynt að leggja dóm á hvar umbóta er þörf, verður annars vegar að líta til einkunna og hins vegar til alþjóðlegs samanburðar. Lágar einkunnir benda til mikilla takmarkana á efnahagslegt frelsi, sem ástæða er til að draga úr. Slæm útkoma í alþjóðlegum samanburði þar sem einkunnir eru samt ekki ýkja lágar bendir til þess unnt sé að gera betur. Þá verður líka að hafa í huga að um er að ræða samanburðarhæf gögn svo ekki er um allra nýjustu upplýsingar að ræða. Nýjustu samanburðarhæfu gögnin eru frá árinu 2021 og er miðað við þau.  

Einna brýnast virðist fyrir Íslendinga að ráðast í að minnka umsvif hins opinbera og minnka reglubyrði. Umsvif hins opinbera eru töluvert áhyggjuefni og hlutur opinberra aðila í landsframleiðslunni eru mikil í alþjóðlegum samanburði. Þá er reglubyrði á fjármálamarkaði, vinnumarkaði og í viðskiptaumhverfinu almennt fremur mikil. Í þessum tveimur flokkum er einkunn Íslendinga því lág. Þá er Ísland aðeins í 18. sæti þegar kemur að frelsi til alþjóðaviðskipta, ef marka má niðurstöður skýrslunnar. Hér vega tollar og önnur innflutningshöft nokkuð, en einnig takmarkanir á erlendum fjárfestingum hér á landi. Landið er enn of lokað.

Meira efnahagslegt frelsi eykur líkur á betri lífskjörum 
Rannsóknir benda til að einstaklingar sem búa við mikið efnahagslegt frelsi, njóti almennt betri lífskjara, meira persónufrelsis og lifi lengur. Hér er um að ræða mælingar á grundvallaratriðum sem frjálsar og velmegandi þjóðir byggja samfélög sín á. Þegar litið er á þau lönd sem lægstu einkunn hljóta í skýrslunni kemur í ljós að þau eiga sameiginlegt að vernd eignarréttar og sjálfstæði dómstóla er lítt eða ekki til staðar. Einstaklingurinn má sín því lítils og samkvæmt öllum opinberum aðgengilegum rannsóknargögnum er tæplega hægt að tala um velsæld í þessum löndum. 

Um Frelsisvísitöluna 
Rannsóknin nær sem fyrr segir til 165 lands. Miðað er við upplýsingar frá árinu 2021, en frá því ári eru nýjustu samanburðarhæfu gögnin. Í skýrslunni eru jafnframt uppfærðar niðurstöður eldri skýrslna í tilvikum þar sem gögnin hafa verið tekin til endurskoðunar. Skýrslunni ber að taka með þessum fyrirvara, sem fylgir einatt almennar samanburðarrannsóknum af þessu tagi. Hins vegar veitir þessi skýrsla, sem er ein sú vandaðasta sinnar tegundar, góðar vísbendingar um efnahagslegt frelsi hér á landi í alþjóðlegum samanburði og þróun þess á undanförnum áratugum. 

Megin breytingar við vinnslu Vísitölu atvinnufrelsis 2023

Síðustu ár hefur þurft að bregðast við því við gerð vísitölunnar að tvær uppsprettur gagna eru ekki til staðar lengur. Annars vegar er þar um að ræða að Alþjóðabankinn hætti skyndilega að gefa út Doing Business og hins vegar hefur World Economic Forum ekki gefið út Global Competitiveness Report undanfarin þrjú ár. Þessar tvær uppsprettur gagna voru notaðar til að reikna þætti eða undirþætti, að hluta eða öllu leyti, í um 40% þeirra. Fram til gerðar núverandi skýrslu skapaði þetta engan vanda. Það þurfti því nú að leita annarra gagna sem gætu komið í stað þessa og varð niðurstaðan að vinna með gögn frá Economist Intelligence Unit (EIU) Business Environment Rankings. Gögn þeirra ná aftur til 2017 og hefur því Vísitala atvinnufrelsis verið endurreiknuð aftur til þess tíma. Sjá nánar um þessa aðlögun gagna í skýrslunni sjálfri, kafla 1.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér á rafrænu formi.

Ársskýrslan er unnin undir stjórn Fraser stofnunarinnar í Kanada í samstarfi sjálfstæðra rannsóknar- og fræðslustofnana í um í 100 löndum sem tengjast böndum í gegnum Samstarfsnet um efnahagslegt frelsi. RSE er aðili að samstarfsnetinu.