Prentfrelsi á Íslandi

13.10.2023

— 250 ár frá stofnun Hrappseyjarprentsmiðju
Eftir Margréti Gunnarsdóttur

Þess verður minnst með málþingi laugardaginn 14. október næstkomandi að 250 ár eru frá stofnun Hrappseyjarprentsmiðju árið 1773. Hún hafði fyrst íslenskra prentsmiðja konungsleyfi til að prenta veraldleg rit. Markaði stofnun prentsmiðjunnar því þáttaskil. Tjáningar- og prentfrelsi á opinberum vettvangi ríkti um skeið.

Vindar nýrra tíma höfðu árin á undan leikið um danskt samfélag, þar sem tjáningarfrelsi ríkti í skammærri valdatíð líflæknis Kristjáns VII, hins þýska Struensees, frá 1770 til 1772. Þessi frelsisandi barst yfir Atlantshafið og festi rætur í Breiðafirði þar sem prentsmiðjan tók til starfa á Hrappsey. Forystumenn um framtakið voru Bogi Benediktsson í Hrappsey og Ólafur Olavius, sem undanfarið hafði stundað nám í Kaupmannahöfn. Magnús Ketilsson sýslumaður í Dalasýslu bar lengst af hitann og þungann af útgáfustörfunum.

Tímaritið Islandske Maanedstidene var undir ritstjórn Magnúsar og kom út reglulega á árunum 1773-1776. Sýslumaðurinn hélt jafnan sjálfur um pennann og mælti ákaft fyrir frjálsri verslun og uppbyggingu atvinnuvega í landinu, einkum landbúnaðar. Magnús sá fyrir sér, eins og hann hafði útskýrt áður en prentsmiðjan hóf starfsemi í skýrslu til Landsnefndarinnar fyrri árið 1771, að gagnlegt væri að gefa út á Íslandi rit um stjórnmál, siðalærdóma og efnahagsmál. Efni af því tagi myndi mennta landsmenn og auka hróður dönsku krúnunnar og tryggð Íslendinga við hana. Rétt eins og Magnús vænti Ólafur Olavius góðra ávaxta af starfseminni föðurlandinu til heilla.

Nokkrar bækur sem stuðla áttu að umbótum í landbúnaði komu út meðan prentsmiðjan starfaði. Þar á meðal voru Nokkrar tilraunir gjörðar með nokkrar sáðtegundir, Undirvísun um þá íslensku sauðfjárhirðing og rit Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal Atli eður ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn. Þá er þess að geta að Annálar Björns á Skarðsá voru prentaðir í Hrappsey og lögfræðirit um Norsku lög og Búalög en jafnframt tilskipanir konungs. Einnig var gefið út skemmtiefni eins og kvæði og rímur og vonuðust forsvarsmenn til þess að tækifæri myndi skapast til að gefa út íslensk fornbókmenntarit. Eitt rit af því tagi kom út, Sagan af Agli Skallagrímssyni, árið 1782.

Jón Helgason kemst að þeirri niðurstöðu í riti sínu Hrappseyjarprentsmiðja 1773-1794, sem gefið var út af Hinu íslenska fræðafjelagi í Kaupmannahöfn árið 1928, að væntingar stofnenda prentsmiðjunnar hefðu ekki ræst. En þó hefði starfsemi hennar leitt til aukinnar fjölbreytni í útgáfu en fram til þessa voru útgefnar bækur á Íslandi eingöngu guðsorðarit. En verkefni þeirra Boga, Ólafs, sem aðeins var viðloðandi í upphafi, og Magnúsar var aldrei auðvelt. Eftir nokkurra ára starfsemi barðist prentsmiðjan í bökkum. Magnús Ketilsson skrifaði þá í bréfi til Jóns Eiríkssonar í Kaupmannahöfn að hann væri orðinn mæddur á útgáfustritinu. Hörmungar Skaftárelda gerðu svo illt verra og fyrir lok átjándu aldar var prentsmiðjudraumurinn í Hrappsey úti.

Málþingið, sem Félag um átjándu aldar fræði hefur veg og vanda af, og þar sem stofnun og sögu Hrappseyjarprentsmiðju verður minnst, fer fram í fyrirlestrarsal á 2. hæð í Þjóðarbókhlöðunni. Það hefst klukkan 13:30 og stendur til 16:15. Fjallað verður um sögu prentsmiðjunnar í Hrappsey frá ýmsum hliðum. Hrafnkell Lárusson sagnfræðingur mun segja frá aðstandendum Hrappseyjarprentsmiðju, Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í íslenskum bókmenntum, mun fjalla um helstu efnisflokka í útgáfuritum Hrappseyjarprentsmiðju og Guðrún Laufey Guðmundsdóttir sagnfræðingur gerir grein fyrir útgáfu fyrsta íslenska tímaritsins sem gefið var út, Islandske Maaneds-Tidender. Að lokum mun Kristín Bragadóttir sagnfræðingur skýra frá breytingum á útgáfu bóka fyrir íslenskan almenning með tilkomu Hrappseyjarprentsmiðju.