Þótt á þessu ári séu liðin rétt þrjú hundruð ár frá því, að Adam Smith, faðir hagfræðinnar, fæddist, eru hugmyndir hans enn sprelllifandi. Það er þess vegna fagnaðarefni, að hagfræðideild Háskóla Íslands og RSE, Rannsóknarmiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum, skuli hafa fengið einn helsta sérfræðing heims í kenningum Smiths, Prófessor Craig Smith, til að halda fyrirlestur í hátíðarsal Háskólans miðvikudaginn 6. desember kl. 16.20. Hér ætla ég af því tilefni að segja örfá orð um tvær öflugustu hugmyndir Smiths, að eins gróði þurfi ekki að vera annars tap og að skipulag krefjist ekki alltaf skipuleggjanda.
Gróði án taps
Í Auðlegð þjóðanna, sem kom út árið 1776, varpaði Smith fram skýringu á því, hvernig einstaklingar og þjóðir gætu brotist úr fátækt í bjargálnir. Hún var fólgin í verkaskiptingunni. Í frjálsum viðskiptum fá menn það frá öðrum, sem þá vantar og aðrir hafa, og láta aðra fá það, sem aðra vantar og þeir hafa. Báðir græða, hvorugur tapar. Jón á Bægisá þýddi kvæði um þessa hugmynd eftir þýska skáldið Gellert:
Gáfur eigi þú hefir hinna,
hinum er varnað gáfna þinna,
og af þörfnunar þessum hag
er þjóða sprottið samfélag.
Einfaldasta dæmið er af Róbinson Krúsó og Föstudegi í skáldsögunni frægu. Setjum svo, að Róbinson kunni betur til fiskveiða en Föstudagur, en Föstudagur sé hins vegar lagnari í að tína kókoshnetur. Þá græða báðir á því, að Róbinson haldi sig að veiðum og Föstudagur að hnetutínslu, en þeir skiptist síðan á þessum verðmætum. Hið sama er að segja um þjóðir. Pólland hentar til kornyrkju, en Portúgal til vínræktar. Pólverjar og Portúgalir einbeita sér að því, sem þeir geta gert betur en aðrir, og skiptast síðan á korni og víni báðum í hag.
Náttúran hefur dreift mannlegum hæfileikum og landgæðum ójafnt, en frjáls viðskipti jafna metin, gera mönnum kleift að nýta hæfileika annarra og ólík gæði landa. Saga síðustu tvö hundruð ára hefur staðfest kenningu Smiths, svo að um munar. Þær þjóðir, sem auðvelda frjálsa samkeppni og stunda frjáls viðskipti, hafa stikað á sjömílnaskóm inn í ótrúlega velsæld samanborið við fyrri tíma. Hinar sitja fastar í fátækt. Árlega er reiknuð út vísitala atvinnufrelsis fyrir langflest lönd heims á vegum Fraser stofnunarinnar í Kanada. Ef löndunum er skipt í fernt eftir atvinnufrelsi, þá eru meðaltekjur 10% tekjulægsta hópsins í frjálsasta fjórðungnum hærri en meðaltekjur allra í ófrjálsasta fjórðungnum. Með öðrum orðum eru lífskjör fátækasta fólksins í frjálsustu löndunum betri en almenn lífskjör í ófrjálsustu löndunum.
Skipulag án skipuleggjanda
Í verkum sínum kom Adam Smith einnig orðum að þeirri merkilegu hugmynd, að skipulag krefjist ekki alltaf skipuleggjanda. Það geti sprottið upp úr frjálsum samskiptum, gagnkvæmri aðlögun einstaklinga. Markaðurinn er sá vettvangur, sem menn hafa til að skiptast á vöru og þjónustu. Þar hækka menn eða lækka verð á vöru sinni og þjónustu, uns jafnvægi hefur náðst, milli framboðs og eftirspurnar, innflutnings og útflutnings, sparnaðar og fjárfestingar. Þetta jafnvægi er sjálfsprottið, ekki valdboðið. Það fæst með verðlagningu, ekki skipulagningu. Atvinnulífið getur verið skipulegt án þess að vera skipulagt. Auðvitað er það jafnvægi, sem þar getur náðst, ekki fullkomið, en það er þó sífellt að leiðrétta sig sjálft eftir þeim upplýsingum, sem berast með gróða eða tapi. Menn græða, ef þeim tekst að fullnægja þörfum viðskiptavinanna betur en keppinautarnir. Þeir tapa, ef þeir gera þrálát mistök og skeyta ekki um breytilegan smekk og áhugamál viðskiptavinanna.
Fræg er sú hugmynd Smiths, að við væntum ekki málsverðar okkar vegna góðvildar slátrarans, bruggarans eða bakarans, heldur vegna umhyggju þeirra um eigin hag. Örn Arnarson orti í sama anda:
Vinsemd brást og bróðurást,
breyttist ást hjá konum.
Matarást var skömminni skást,
skjaldan brást hún vonum.
Matarástin tengir menn, sem þekkjast ekki, betur saman en náungakærleikurinn, sem nær eðli málsins samkvæmt aðeins til næstu náunga, vandamanna, nágranna, hugsanlega samlanda. Í frjálsri samkeppni leiðir „ósýnileg hönd“ þá, sem vilja græða, að því að þjóna þörfum viðskiptavina sinna. Það er hins vegar misskilningur, að Smith hafi verið stuðningsmaður lágríkisins (minimum state). Hann taldi ríkið gegna þremur mikilvægum hlutverkum, að tryggja landvarnir, halda uppi lögum og reglu og sjá um, að nóg yrði framleitt af svokölluðum samgæðum (public goods). Meðal annars hafði hann áhyggjur af því, að verkaskiptingin gæti þrengt óhóflega sjónarhorn einstaklinganna og þess vegna þyrfti ríkið að víkka það út með öflugri alþýðumenntun.
Hagmenni og hagvöxtur
Um Adam Smith á það við, að þeir hafa mest um hann að segja, sem minnst hafa lesið eftir hann. Því er til dæmis haldið fram, að hann hafi talið manninn vera hagmenni, homo economicus, sem hugsi aðeins um eigin hag. (Um þetta hefur Sigfús Bjartmars sett saman smellna ljóðabók!) Því fer fjarri. Hagmennið er greiningartæki, ekki lýsing á manneðlinu. Þetta greiningartæki gerir okkur kleift að spá fyrir um niðurstöður, ef og þegar menn keppa að eigin hag, eins og flestir gera í viðskiptum við ókunnuga. Konur láta til dæmis oftast stjórnast af móðurást í samskiptum við börn sín, fórna miklu. En þegar þær fara út á markaðinn, reyna þær að kaupa sem besta vöru við sem lægstu verði, fórna engu. Þar stjórnast þær eins og flestir aðrir af matarástinni. Og þótt menn velji sér eflaust oftast ævistarf eftir áhugamálum og hæfileikum, ekki tekjumöguleikum einum saman, er óhætt að spá því, ef tekjur af einhverju starfi snarminnka, að færri muni þá leggja það fyrir sig, en ef þær aukast, að fleiri muni þá sækjast eftir því. Og öll skáldin, sem hæðast að hagfræðingum fyrir að vita allt um verð, en ekkert um verðmæti, munu jafnan taka lægra farmiðaverð fram yfir hærra, þegar þau fljúga í upplestrarferðir.
Því er líka haldið fram, að hugmyndin um hagvöxt standist ekki, þegar til langs tíma sé litið. Kapítalisminn, hugarfóstur Adams Smiths, sé ekki sjálfbær. Nú var Smith sjálfur enginn sérstakur stuðningsmaður kapítalista. Hann studdi frjálsa samkeppni, af því að hún er neytendum í hag, og hann taldi með sterkum rökum verkaskiptinguna greiðfærustu leiðina til almennrar hagsældar. En í raun og veru er hagvöxtur sjaldnast fólginn í að framleiða meira, heldur miklu frekar í að framleiða minna, minnka fyrirhöfnina, finna ódýrari leiðir að gefnu marki, spara sér tíma og orku. Auk þess er hagvöxturinn afkastamesti sáttasemjarinn. Í stað þess að auka eigin hlut með því að hrifsa frá öðrum geta menn reynt að auka hann með því að nýta betur það, sem þeir hafa, og bæta það síðan, hlúa að því, svo að það vaxi og dafni í höndum þeirra. Og þegar að er gáð, eru mengun og rányrkja vegna þess, að enginn á og gætir auðlinda. Umhverfisvernd krefst umhverfisverndara, einkaeignarréttar eða einkaafnotaréttar á auðlindum.
Áhrif Smiths á Íslandi
Ekki verður skilið við Adam Smith án þess að minnast þess, að líklega hafði hann einhver heillavænlegustu óbein áhrif á Íslandssöguna allra erlendra manna. Í maí 1762 höfðu þrír Norðmenn í löngu ferðalagi um Evrópu heimsótt Smith í Glasgow, en hann var þá þegar orðinn kunnur og virtur heimspekingur, ekki síst vegna bókarinnar Kenningar um siðferðiskenndirnar, sem kom út árið 1759. Þeir voru Andreas Holt og bræðurnir Peter og Carsten Anker. Þeir urðu góðir vinir Smiths og hittu hann aftur í Toulouse í Frakklandi í mars 1764. Þegar þeir sneru heim, tóku þeir við háum embættum í dansk-norska ríkinu. Holt var til dæmis formaður landsnefndarinnar fyrri 1770–1772, sem lagði á ráðin um umbætur á Íslandi. Þessir vinir Smiths höfðu forgöngu um það, að Auðlegð þjóðanna var þýdd á dönsku, og kom hún út árin 1779–1780. Í bréfi til Holts í október 1780 þakkaði Smith honum fyrir skemmtilegan ferðapistil um Ísland og lýsti yfir ánægju sinni með, að bókin skyldi komin út. Carsten Anker og þýðandi bókarinnar, Frands Dræbye, störfuðu báðir í danska Rentukammerinu og höfðu áreiðanlega sitt að segja um það, að einokunarverslunin var afnumin árið 1787, en hún hafði verið einhver helsti dragbíturinn á vöxt og viðgang íslensks atvinnulífs. Yfirmaður Rentukammersins á þeirri tíð, Ernst Schimmelmann, var líka snortinn af frelsisrökum Smiths. Líklega eiga fáar þjóðir eins mikið undir frjálsum alþjóðaviðskiptum og við Íslendingar. Það er því full ástæða til að leggja við hlustir í hátíðarsal Háskólans kl. 16.20 miðvikudaginn 6. desember.
(Grein í Morgunblaðinu 5. desember 2023.)