Kunnur vísindarithöfundur sækir Ísland heim

16.07.2024

Einn kunn­asti vís­inda­rit­höf­und­ur heims, Matt Ridley, er stadd­ur á Íslandi og ætl­ar að rabba við áhuga­menn um stjórn­mál, heim­speki og vís­indi miðviku­dag­inn 17. júlí kl. 16.30 í stofu 101 á Há­skóla­torgi, HT-101. Er fund­ur­inn á veg­um RSE, Rann­sóknamiðstöðvar um sam­fé­lags- og efna­hags­mál. Ridley hef­ur skrifað fjölda bóka, og kom ein þeirra út á ís­lensku árið 2014, Heim­ur batn­andi fer (The Rati­onal Optim­ist). Hann er einn frjó­asti hugsuður, sem nú er uppi, fjör­ug­ur fyr­ir­les­ari og lip­ur rit­höf­und­ur.

Þró­un­ar­kenn­ing um kyn­líf

Matt­hew White Ridley fædd­ist árið 1958, og var langa­langafi hans hinn kunni húsa­meist­ari Sir Edw­in L. Lutyens. Ridley lauk doktors­prófi í dýra­fræði frá Oxford-há­skóla árið 1983. Hann var vís­inda­rit­stjóri viku­blaðsins Econom­ist 1984-1987 og frétta­rit­ari og síðan banda­rísk­ur rit­stjóri blaðsins í Washingt­on-borg 1987-1992. Eft­ir það hef­ur hann starfað sem sjálf­stæður rit­höf­und­ur, en einnig haldið úti föst­um dálki um vís­indi í Wall Street Journal og The Times. Kona hans, Anya Hurlbert, er pró­fess­or í tauga­líf­fræði, og eiga þau tvö börn.

Árið 1993 gaf Ridley út bók­ina Rauðu drottn­ing­una: kyn­líf og þróun manneðlis­ins (The Red Qu­een: Sex and the Evoluti­on of Hum­an Nature). Nafnið vís­ar til rauðu drottn­ing­ar­inn­ar, sem kem­ur fyr­ir í bók Lew­is Carrolls, Í gegn­um speg­il­inn: og það sem Lísa fann þar (Through the Look­ing-Glass, and What Alice Found Th­ere), en sú bók er fram­hald Lísu í Undralandi og hef­ur komið út á ís­lensku. Rauða drottn­ing­in verður að hlaupa til þess að standa í stað. Í bók­inni ræðir Ridley þá gátu, hvers vegna æxl­un manna er tví­kynja, en ekki ein­kynja eins og margra annarra líf­vera. Tel­ur hann kyn­líf með tveim­ur þátt­tak­end­um leiða til til­tölu­lega hag­kvæmr­ar sam­setn­ing­ar erfðavísa. Jafn­framt set­ur hann fram þá til­gátu, að í sam­keppni ein­stak­linga um hylli hins kyns­ins hafi til­tekn­ir hæfi­leik­ar val­ist úr, mann­leg greind orðið til. Er bók­in bráðskemmti­leg af­lestr­ar og full af hug­vit­sam­leg­um dæm­um.

Þró­un­ar­kenn­ing um dygðir

Árið 1996 gaf Ridley út bók­ina Upp­sprett­ur dygðanna: Eðlisávís­un manns­ins og þróun sam­vinnu (The Orig­ins of Virtue: Hum­an Inst­incts and the Evoluti­on of Cooperati­on). Þar held­ur hann því fram, að maður­inn hafi í langri þróun öðlast sér­stak­an hæfi­leika til sam­skipta um­fram önn­ur dýr, og þessi hæfi­leiki geri hon­um kleift að njóta ávaxta sjálfsprott­inn­ar sam­vinnu. Maður­inn sé því ekki fædd­ur góður og spill­ist af því að búa með öðrum, eins og Rous­seau og Marx kenndu, eða fædd­ur vond­ur og verði þess vegna að sæta hörðum aga, eins og Hobbes og Machia­velli trúðu, held­ur verði hann smám sam­an góður á því að temja sér rétt­ar regl­ur um sam­skipti, ekki síst frjáls viðskipti.

Næstu þrjár bæk­ur Ridleys voru all­ar um mann­leg­ar erfðir. Árið 1999 kom út Erfðamengi: Sjálfsævi­saga teg­und­ar í 23 köfl­um (Genome: The Autobi­ograp­hy of a Species in 23 Chap­ters), þar sem lýst er þeim litn­ing­um (chromosomes), sem ákveða erfðir manns­ins. Árið 2003 kom út Eðli í krafti um­hverf­is: Erfðavís­ar: reynsla og það, sem ger­ir okk­ur mennsk (Nature via Nurt­ure: Genes, Experience What Makes Us Hum­an), þar sem lýst er sam­leik erfðavísa og um­hverf­is í þróun manns­ins. Árið 2006 kom út Franc­is Crick: Maður­inn, sem réði tákn­mál erfðanna (Franc­is Crick: Disco­v­erer of the Genetic Code), ævi­saga hins heimsk­unna erfðafræðings. Hlaut Ridley verðlaun Vís­inda­sögu­fé­lags Banda­ríkj­anna fyr­ir verkið. Í öll­um þess­um bók­um naut sín hæfi­leiki Ridleys til að skrifa ein­fald­an texta um flók­in mál.

Rit­deila við Bill Gates

Árið 2010 gaf Ridley út þá bók sína, sem til er á ís­lensku, Heim­ur batn­andi fer. Rit­deila var háð um hana í Wall Street Journal í nóv­em­ber 2010. Í rit­dómi sagðist auðjöf­ur­inn Bill Gates sam­mála Ridley um, að auðlegð þjóða væri vegna viðskipta og verka­skipt­ing­ar. Þetta væri auðvitað ekk­ert nýtt, en Ridley tæk­ist vegna þekk­ing­ar sinn­ar á dýra­fræði að nefna mörg fróðleg dæmi. Gates kvaðst líka sam­mála Ridley um, að full ástæða væri til bjart­sýni um framtíð mann­kyns, væri rétt á mál­um haldið. Hins veg­ar væri hann ekki sami efa­semd­armaður um þró­un­araðstoð við Afr­íku og Ridley. Hann teldi einnig, að tak­marka ætti mjög los­un gróður­húsaloft­teg­unda. Í svari sínu kvaðst Ridley frek­ar treysta á tækni­fram­far­ir í krafti frels­is en fram­lög úr op­in­ber­um sjóðum, sem emb­ætt­is­menn ættu að ráðstafa. Frá 2010 hef­ur raun­ar orðið veru­leg­ur hag­vöxt­ur í Afr­íku sunn­an Sa­hara, en eng­um dett­ur í hug, að hann sé vegna þró­un­araðstoðar. Erfiðlega hef­ur einnig gengið að ná sam­komu­lagi um mikla tak­mörk­un á los­un gróður­húsaloft­teg­unda, enda með öllu óvíst, að nei­kvæðar af­leiðing­ar hlýn­un­ar séu meiri en hinar já­kvæðu.

Árið 2015 gaf Ridley út bók­ina Þróun á öll­um sviðum: Upp­sprett­ur hug­mynda (The Evoluti­on of Everything: How Ideas Emer­ge). Þar út­fær­ir hann þró­un­ar­kenn­ingu Darw­ins: Sú regla, sem við sjá­um í mann­heimi og í dýra­rík­inu, er ekki sköpuð af nein­um, held­ur af­leiðing nátt­úru­vals, þar sem hæf­ustu teg­und­irn­ar, aðferðirn­ar og hug­mynd­irn­ar hafa haldið velli. Í mann­heimi er þessi regla af­leiðing víxl­verk­un­ar vit­unda. Árið 2020 gaf Ridley út bók­ina Leið ný­sköp­un­ar og hvers vegna hún blómg­ast við frelsi (How Innovati­on Works: And Why It Flouris­hes in Freedom). Þar held­ur hann því fram, að eitt helsta ein­kenni nú­tím­ans sé ný­sköp­un, en af henni hafi leitt stór­kost­leg­ar lífs­kjara­bæt­ur og marg­vís­leg­ar rót­tæk­ar breyt­ing­ar mann­legs sam­lífs. En fáir skilji ný­sköp­un. Hún mynd­ist aðallega að neðan og upp eft­ir í krafti frjálsra viðskipta, en ekki að ofan og niður eft­ir sam­kvæmt ein­hverj­um áætl­un­um. Hún sé alltaf fólg­in í mann­leg­um sam­skipt­um, aðferð happa og glappa, til­rauna og mistaka. Hins veg­ar sé ný­sköp­un nú að minnka vegna op­in­berra af­skipta og þung­lama­legr­ar skriffinnsku.

Á slóð Leður­blöku­kon­unn­ar

Ein nýj­asta bók Ridleys hef­ur vakið mikla at­hygli, Far­ald­ur: Leit­in að upp­hafi kór­ónu­veirunn­ar (Viral: The Se­arch for the Orig­in of COVID-19) . Hann skrif­ar hana með dr. Al­ina Chan, sér­fræðingi í Broad rann­sókn­ar­stofn­un­inni, sem Har­vard-há­skóli og Tækni­há­skól­inn í Massachusetts, MIT, reka sam­eig­in­lega. Heims­far­ald­ur­inn, sem kór­ónu­veir­an frá Kína olli, kostaði lík­lega um tutt­ugu millj­ón­ir manns­lífa og var fimmti mann­skæðasti far­ald­ur mann­kyns­sög­unn­ar, á eft­ir Spánsku veik­inni 1918-1920, Svarta­dauða hinum fyrri 541-549, eyðnifar­aldr­in­um frá 1981, og Svarta­dauða hinum síðari 1346-1353. Jafn­framt hafði far­ald­ur­inn marg­vís­leg áhrif á líf flestra jarðarbúa, sam­göng­ur stöðvuðust, skól­um var lokað, fyr­ir­tæki hættu rekstri, að kreppti í at­vinnu­lífi. Það skipt­ir því miklu máli að finna upp­haf kór­ónu­veirunn­ar, sem olli þess­um ósköp­um, svo að sag­an end­ur­taki sig ekki, og er tóm­lætið um það furðulegt.

Í upp­hafi töldu flest­ir, að kór­ónu­veir­an hefði stokkið yfir í menn úr dýr­um á úti­markaði í Wu­h­an-borg. Mörg dæmi voru kunn um áþekk­an fer­il smit­sjúk­dóma, og veir­an er ná­skyld ýms­um öðrum veir­um, sem hleypt hafa af stað far­sótt­um, en fyrstu hýsl­arn­ir eru oft­ast leður­blök­ur. En gall­inn var sá, að ekki fannst neitt dýr, sem átti að hafa borið þessa veiru í menn. Kín­verski komm­ún­ista­flokk­ur­inn neitaði líka allri sam­vinnu við er­lenda vís­inda­menn um ræki­lega rann­sókn á upp­hafi veirunn­ar. Í Wu­h­an starfar mik­il rann­sókn­ar­stofn­un í veiru­fræði. Vef­ur henn­ar um veiru­grein­ing­ar var skyndi­lega tek­inn niður. Skrán­ing dauðsfalla var í upp­hafi ekki eðli­leg (þeir ein­ir voru skráðir dán­ir af völd­um veirunn­ar, sem sann­an­lega höfðu verið á úti­markaðnum). Margt annað furðulegt gerðist. Til dæm­is var frétta­mönn­um meinaður aðgang­ur að kop­ar­námu í Yunn­an, þar sem nokkr­ir starfs­menn höfðu greinst með svipaðan veiru­sjúk­dóm árið 2012. Þar var allt fullt af leður­blök­um, sem báru í sér veir­ur sömu ætt­ar og kór­ónu­veir­an skæða, og hafði for­stöðumaður rann­sókn­ar­stofn­un­ar­inn­ar í Wu­h­an, dr. Shi Zhengli, iðulega kölluð Leður­blöku­kon­an, margoft gert sér ferð þangað til að safna sýn­um. Kór­ónu­veir­an er óvenju­smit­næm, vegna þess að hún er með sér­stakt grip, sem auðveld­ar henni leið inn í manns­lík­amann. Annaðhvort myndaðist þetta grip nátt­úr­lega eða var sett utan á hana. Leður­blöku­kon­an og banda­rísk­ur sam­starfsmaður henn­ar, dr. Peter Daszak, höfðu ein­mitt sótt ár­ang­urs­laust um styrk árið 2018 til að rann­saka, hvernig setja mætti slíkt grip inn í veir­ur sömu ætt­ar. Daszak samdi ávarp, sem birt­ist í hinu virta lækna­tíma­riti Lancet 19. fe­brú­ar 2020 og 27 vís­inda­menn skrifuðu und­ir, þar sem þeir vísuðu al­ger­lega á bug til­gát­unni um leka frá rann­sókn­ar­stofu. Daszak leyndi því eins lengi og hann gat, að hann var einn höf­und­ur ávarps­ins og að hann hafði marg­vís­leg tengsl við rann­sókn­ar­stof­una í Wu­h­an.

Bresk stjórn­mál

Sjálf­ur tel­ur Matt Ridley senni­legt, en þó ósannað, að kór­ónu­veir­an hafi lekið út af rann­sókn­ar­stof­unni í Wu­h­an. En hann hef­ur haft margt fleira fyr­ir stafni en bóka­skrif. Hann var stjórn­ar­formaður Nort­hern Rock bank­ans 2004-2007, en sá banki var eitt fyrsta fórn­ar­lamb lausa­fjárskorts­ins, sem myndaðist skyndi­lega á fjár­mála­mörkuðum árið 2007 og kom hart niður á bönk­um með inn­lán til skamms tíma og út­lán til langs tíma. Ridley, sem er fimmti ví­sigreifi Ridley og býr á sveita­setri í Norður-Englandi, sat í lá­v­arðadeild­inni bresku fyr­ir Íhalds­flokk­inn 2013-2021. Þar var hann ein­dreg­inn stuðnings­maður út­göngu Bret­lands úr Evr­ópu­sam­band­inu. Hann hef­ur því frá nógu að segja og ekki aðeins al­mælt­um tíðind­um.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Höf­und­ur er pró­fess­or emer­it­us í stjórn­mála­fræði.

Morgunblaðið, þriðjudagur, 16. júlí 2024