Einn kunnasti vísindarithöfundur heims, Matt Ridley, er staddur á Íslandi og ætlar að rabba við áhugamenn um stjórnmál, heimspeki og vísindi miðvikudaginn 17. júlí kl. 16.30 í stofu 101 á Háskólatorgi, HT-101. Er fundurinn á vegum RSE, Rannsóknamiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál. Ridley hefur skrifað fjölda bóka, og kom ein þeirra út á íslensku árið 2014, Heimur batnandi fer (The Rational Optimist). Hann er einn frjóasti hugsuður, sem nú er uppi, fjörugur fyrirlesari og lipur rithöfundur.
Þróunarkenning um kynlíf
Matthew White Ridley fæddist árið 1958, og var langalangafi hans hinn kunni húsameistari Sir Edwin L. Lutyens. Ridley lauk doktorsprófi í dýrafræði frá Oxford-háskóla árið 1983. Hann var vísindaritstjóri vikublaðsins Economist 1984-1987 og fréttaritari og síðan bandarískur ritstjóri blaðsins í Washington-borg 1987-1992. Eftir það hefur hann starfað sem sjálfstæður rithöfundur, en einnig haldið úti föstum dálki um vísindi í Wall Street Journal og The Times. Kona hans, Anya Hurlbert, er prófessor í taugalíffræði, og eiga þau tvö börn.
Árið 1993 gaf Ridley út bókina Rauðu drottninguna: kynlíf og þróun manneðlisins (The Red Queen: Sex and the Evolution of Human Nature). Nafnið vísar til rauðu drottningarinnar, sem kemur fyrir í bók Lewis Carrolls, Í gegnum spegilinn: og það sem Lísa fann þar (Through the Looking-Glass, and What Alice Found There), en sú bók er framhald Lísu í Undralandi og hefur komið út á íslensku. Rauða drottningin verður að hlaupa til þess að standa í stað. Í bókinni ræðir Ridley þá gátu, hvers vegna æxlun manna er tvíkynja, en ekki einkynja eins og margra annarra lífvera. Telur hann kynlíf með tveimur þátttakendum leiða til tiltölulega hagkvæmrar samsetningar erfðavísa. Jafnframt setur hann fram þá tilgátu, að í samkeppni einstaklinga um hylli hins kynsins hafi tilteknir hæfileikar valist úr, mannleg greind orðið til. Er bókin bráðskemmtileg aflestrar og full af hugvitsamlegum dæmum.
Þróunarkenning um dygðir
Árið 1996 gaf Ridley út bókina Uppsprettur dygðanna: Eðlisávísun mannsins og þróun samvinnu (The Origins of Virtue: Human Instincts and the Evolution of Cooperation). Þar heldur hann því fram, að maðurinn hafi í langri þróun öðlast sérstakan hæfileika til samskipta umfram önnur dýr, og þessi hæfileiki geri honum kleift að njóta ávaxta sjálfsprottinnar samvinnu. Maðurinn sé því ekki fæddur góður og spillist af því að búa með öðrum, eins og Rousseau og Marx kenndu, eða fæddur vondur og verði þess vegna að sæta hörðum aga, eins og Hobbes og Machiavelli trúðu, heldur verði hann smám saman góður á því að temja sér réttar reglur um samskipti, ekki síst frjáls viðskipti.
Næstu þrjár bækur Ridleys voru allar um mannlegar erfðir. Árið 1999 kom út Erfðamengi: Sjálfsævisaga tegundar í 23 köflum (Genome: The Autobiography of a Species in 23 Chapters), þar sem lýst er þeim litningum (chromosomes), sem ákveða erfðir mannsins. Árið 2003 kom út Eðli í krafti umhverfis: Erfðavísar: reynsla og það, sem gerir okkur mennsk (Nature via Nurture: Genes, Experience What Makes Us Human), þar sem lýst er samleik erfðavísa og umhverfis í þróun mannsins. Árið 2006 kom út Francis Crick: Maðurinn, sem réði táknmál erfðanna (Francis Crick: Discoverer of the Genetic Code), ævisaga hins heimskunna erfðafræðings. Hlaut Ridley verðlaun Vísindasögufélags Bandaríkjanna fyrir verkið. Í öllum þessum bókum naut sín hæfileiki Ridleys til að skrifa einfaldan texta um flókin mál.
Ritdeila við Bill Gates
Árið 2010 gaf Ridley út þá bók sína, sem til er á íslensku, Heimur batnandi fer. Ritdeila var háð um hana í Wall Street Journal í nóvember 2010. Í ritdómi sagðist auðjöfurinn Bill Gates sammála Ridley um, að auðlegð þjóða væri vegna viðskipta og verkaskiptingar. Þetta væri auðvitað ekkert nýtt, en Ridley tækist vegna þekkingar sinnar á dýrafræði að nefna mörg fróðleg dæmi. Gates kvaðst líka sammála Ridley um, að full ástæða væri til bjartsýni um framtíð mannkyns, væri rétt á málum haldið. Hins vegar væri hann ekki sami efasemdarmaður um þróunaraðstoð við Afríku og Ridley. Hann teldi einnig, að takmarka ætti mjög losun gróðurhúsalofttegunda. Í svari sínu kvaðst Ridley frekar treysta á tækniframfarir í krafti frelsis en framlög úr opinberum sjóðum, sem embættismenn ættu að ráðstafa. Frá 2010 hefur raunar orðið verulegur hagvöxtur í Afríku sunnan Sahara, en engum dettur í hug, að hann sé vegna þróunaraðstoðar. Erfiðlega hefur einnig gengið að ná samkomulagi um mikla takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda, enda með öllu óvíst, að neikvæðar afleiðingar hlýnunar séu meiri en hinar jákvæðu.
Árið 2015 gaf Ridley út bókina Þróun á öllum sviðum: Uppsprettur hugmynda (The Evolution of Everything: How Ideas Emerge). Þar útfærir hann þróunarkenningu Darwins: Sú regla, sem við sjáum í mannheimi og í dýraríkinu, er ekki sköpuð af neinum, heldur afleiðing náttúruvals, þar sem hæfustu tegundirnar, aðferðirnar og hugmyndirnar hafa haldið velli. Í mannheimi er þessi regla afleiðing víxlverkunar vitunda. Árið 2020 gaf Ridley út bókina Leið nýsköpunar og hvers vegna hún blómgast við frelsi (How Innovation Works: And Why It Flourishes in Freedom). Þar heldur hann því fram, að eitt helsta einkenni nútímans sé nýsköpun, en af henni hafi leitt stórkostlegar lífskjarabætur og margvíslegar róttækar breytingar mannlegs samlífs. En fáir skilji nýsköpun. Hún myndist aðallega að neðan og upp eftir í krafti frjálsra viðskipta, en ekki að ofan og niður eftir samkvæmt einhverjum áætlunum. Hún sé alltaf fólgin í mannlegum samskiptum, aðferð happa og glappa, tilrauna og mistaka. Hins vegar sé nýsköpun nú að minnka vegna opinberra afskipta og þunglamalegrar skriffinnsku.
Á slóð Leðurblökukonunnar
Ein nýjasta bók Ridleys hefur vakið mikla athygli, Faraldur: Leitin að upphafi kórónuveirunnar (Viral: The Search for the Origin of COVID-19) . Hann skrifar hana með dr. Alina Chan, sérfræðingi í Broad rannsóknarstofnuninni, sem Harvard-háskóli og Tækniháskólinn í Massachusetts, MIT, reka sameiginlega. Heimsfaraldurinn, sem kórónuveiran frá Kína olli, kostaði líklega um tuttugu milljónir mannslífa og var fimmti mannskæðasti faraldur mannkynssögunnar, á eftir Spánsku veikinni 1918-1920, Svartadauða hinum fyrri 541-549, eyðnifaraldrinum frá 1981, og Svartadauða hinum síðari 1346-1353. Jafnframt hafði faraldurinn margvísleg áhrif á líf flestra jarðarbúa, samgöngur stöðvuðust, skólum var lokað, fyrirtæki hættu rekstri, að kreppti í atvinnulífi. Það skiptir því miklu máli að finna upphaf kórónuveirunnar, sem olli þessum ósköpum, svo að sagan endurtaki sig ekki, og er tómlætið um það furðulegt.
Í upphafi töldu flestir, að kórónuveiran hefði stokkið yfir í menn úr dýrum á útimarkaði í Wuhan-borg. Mörg dæmi voru kunn um áþekkan feril smitsjúkdóma, og veiran er náskyld ýmsum öðrum veirum, sem hleypt hafa af stað farsóttum, en fyrstu hýslarnir eru oftast leðurblökur. En gallinn var sá, að ekki fannst neitt dýr, sem átti að hafa borið þessa veiru í menn. Kínverski kommúnistaflokkurinn neitaði líka allri samvinnu við erlenda vísindamenn um rækilega rannsókn á upphafi veirunnar. Í Wuhan starfar mikil rannsóknarstofnun í veirufræði. Vefur hennar um veirugreiningar var skyndilega tekinn niður. Skráning dauðsfalla var í upphafi ekki eðlileg (þeir einir voru skráðir dánir af völdum veirunnar, sem sannanlega höfðu verið á útimarkaðnum). Margt annað furðulegt gerðist. Til dæmis var fréttamönnum meinaður aðgangur að koparnámu í Yunnan, þar sem nokkrir starfsmenn höfðu greinst með svipaðan veirusjúkdóm árið 2012. Þar var allt fullt af leðurblökum, sem báru í sér veirur sömu ættar og kórónuveiran skæða, og hafði forstöðumaður rannsóknarstofnunarinnar í Wuhan, dr. Shi Zhengli, iðulega kölluð Leðurblökukonan, margoft gert sér ferð þangað til að safna sýnum. Kórónuveiran er óvenjusmitnæm, vegna þess að hún er með sérstakt grip, sem auðveldar henni leið inn í mannslíkamann. Annaðhvort myndaðist þetta grip náttúrlega eða var sett utan á hana. Leðurblökukonan og bandarískur samstarfsmaður hennar, dr. Peter Daszak, höfðu einmitt sótt árangurslaust um styrk árið 2018 til að rannsaka, hvernig setja mætti slíkt grip inn í veirur sömu ættar. Daszak samdi ávarp, sem birtist í hinu virta læknatímariti Lancet 19. febrúar 2020 og 27 vísindamenn skrifuðu undir, þar sem þeir vísuðu algerlega á bug tilgátunni um leka frá rannsóknarstofu. Daszak leyndi því eins lengi og hann gat, að hann var einn höfundur ávarpsins og að hann hafði margvísleg tengsl við rannsóknarstofuna í Wuhan.
Bresk stjórnmál
Sjálfur telur Matt Ridley sennilegt, en þó ósannað, að kórónuveiran hafi lekið út af rannsóknarstofunni í Wuhan. En hann hefur haft margt fleira fyrir stafni en bókaskrif. Hann var stjórnarformaður Northern Rock bankans 2004-2007, en sá banki var eitt fyrsta fórnarlamb lausafjárskortsins, sem myndaðist skyndilega á fjármálamörkuðum árið 2007 og kom hart niður á bönkum með innlán til skamms tíma og útlán til langs tíma. Ridley, sem er fimmti vísigreifi Ridley og býr á sveitasetri í Norður-Englandi, sat í lávarðadeildinni bresku fyrir Íhaldsflokkinn 2013-2021. Þar var hann eindreginn stuðningsmaður útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Hann hefur því frá nógu að segja og ekki aðeins almæltum tíðindum.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Höfundur er prófessor emeritus í stjórnmálafræði.
Morgunblaðið, þriðjudagur, 16. júlí 2024